Hvaða vafra á ég að nota? Hættu amk að nota Internet Explorer!
Flestir vafrar hafa sína kosti og galla, hér ætlum við að stikla á stóru með kosti og galla þeirra og setja í samhengi við notkun á Dynamics 365.
Dynamics 365 er vara frá Microsoft svo einhverjir telja því rökrétt að kerfið hagi sér best í vafra frá Microsoft, eins og t.d. Internet Explorer.
Það var kannski satt fyrir 10 árum en síðan eru liðin mörg ár. Þegar þróun vafra hjá Microsoft hélt ekki lengur í við þróun internetsins fór að halla hressilega undan fæti og urðu þeir á endanum að gefa eftir, eða reyndar gáfu þeir varla eftir, héldu áfram að troða löngu úreldum vafra í andlit Windows notenda.
Það skal þó tekið fram að skv. þessari síðu hjá Microsoft styður Internet Explorer enn við Dynamics 365 ásamt Edge, Firefox, Chrome og Safari (á Mac).
En aftur að byrjuninni, vafrar eru eitthvað sem sumir notendur hugsa ekki mikið útí, nota kannski Internet Explorer eða Firefox af gömlum vana og af hverju að breyta bara til þess að breyta.
Sért þú notandi í stórfyrirtæki getur vel verið að þú sért skikkuð/skikkaður til að nota Internet Explorer en það er beinlínis orðinn hætturlegur vafri í dag og Microsoft segja það sjálfir.
Standir þú þig að því að vera enn að opna og nota Internet Explorer mælum við með að þú hættir því samstundis en með því að nota hann ertu eingöngu að spila rússneska rúllettu við vírusa Internetsins og Nígeríusvindlara.
Þá er nauðsynlegt að minnast á það að jákvæðar fréttir í heimi Microsoft-vafra eru á leiðinni. Þeir eru að fara gefa út nýjan Edge vafra, byggðan á Chromium vafra tækninni og er hann kominn í beta útgáfu nú þegar og kemur út snemma eftir áramót eða nákvæmlega 15. janúar, sækja hann hér. Það verður því að viðurkennast að við treystum svolítið á að nýja "re-make" útgáfan af Edge komi Internet Explorer endanlega í gröfina.
Við tókum nokkur próf á vafrana og sömuleiðis að vafra Dynamics 365 og svona koma okkar niðurstöður út. Það skal tekið fram að Internet Explorer réði ekki við/studdi ekki sum prófin þess vegna vantar hann inní hluta af niðurstöðunum.
Hraðaprófun milli vafra. Edge rekur lestina.
1-2 sæti
Chrome og Firefox
Erfitt að setja Chrome ekki í efsta sætið. Google menn hafa bara verið á tánum undanfarin ár, eða síðan vafrinn kom út. Stundum ákveða þó Google menn að gera einhverja drasktíska breytingu sem hefur áhrif á hvernig Dynamics 365 hegðar sér í vafranum. Nýlegt dæmi er þegar "komma" bættist við fyrir framan og aftan öll skráarnöfn sem voru sótt með Chrome.
Nartandi í hæla Chrome er síðan Firefox sem hefur svo sannarlega komið tilbaka með trompi og mælingar staðfestu það sömuleiðis en hann er að standa sig alveg frábærlega og þar sem Firefox var brautryðjandi á sínum tíma í mjög mörgum málum á hann skilið annað sætið.
3-4 sæti
Microsoft Edge (nýja útgáfan) og Brave
Nýji Edge vafrinn sem er kominn í beta útgáfu og hægt að sækja hér lofar mjög góðu enda byggður á "chromium" grunninum sem Brave og Google Chrome eru byggðir upp af sömuleiðis. Í raun er það aðeins Firefox sem hefur sína eigin vél undir húddinu. Brave er nýlegur vafri sem hefur fengið mikla athygli og þekktastur fyrir að loka á auglýsingar og "tracking" á vefsíðum. Hann er sömuleiðis chromium based eins og áður kom fram því eldsnöggur og öruggur.
Hinn venjulegi "gamli" Edge og Internet Explorer komast ekki á listann þar sem þeir hreinlega eiga það ekki skilið árið 2019.
Minnisnotkun vafranna er mjög svipuð í Windows 10 með einn "tab" opinn í Dynamics 365.
Svo má ekki gleyma: Kerfið virkar á Macca og þá skorar Safari vafrinn best.
En Firefox, Chrome og Brave eru sömuleiðis að gera mjög góða hluti á Macca.
Niðurstaðan er því að það skiptir ekki öllu máli hvort þú notir Chrome, Firefox, Brave eða laumir þér í gamla Edge þangað til nýji kemur endanlega út í janúar 2020. Meðan þú ert ekki að nota Internet Explorer ætti Dynamics 365 að haga sér nokkuð vel hjá þér.
Hvernig ætli staðan á þessu verði eftir eitt eða tvö ár? Það verður áhugavert að taka naflaskoðun á þessu aftur þá og sjá hvernig landslagið hefur breyst. Bindum a.m.k. miklar vonir við að Internet Explorer hverfi með tilkomu Windows Core OS.